Nætursnarlið gerir fólk ekki feitt

Nætursnarl gerir fólk ekki feitt, að því er kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar og greint er frá á fréttavef BBC. Vísindamenn við háskóla í Oregon í Bandaríkjunum hafa gert tilraunir á 47 kvenöpum. Þeir fundu engin tengsl milli þess að borðað væri seint á kvöldin og því hvort aparnir þyngdust.

Vísindamennirnir segja að fullyrðingar um að fólk fitni ef það borðar seint á kvöldin kunni að vera bábiljur einar.

Nigel Denby, hjá breskum samtökum næringarfræðinga, var sammála niðurstöðunum. „Málið er að hitaeining er hitaeining hvenær svo sem þú innbyrðir hana,“ segir Denby. „Líkami þinn áttar sig ekkert á því hvaða tími dagsins er. Þetta er hálfgerð goðsögn.“

„Ég held að misskilninginn megi rekja til þess tíma er fólk fór að hafa áhuga á mataræði. Fólk hefur tilhneigingu til að borða fituríkt snarl á kvöldin þegar það horfir á sjónvarpið. Til að forðast það reynir það að setja hömlur við því hvenær sólarhringsins þar borðar. Ef þú þarft að borða eftir kl. sex eða átta á kvöldin, þá er líklegra heilsusamlegra að setjast niður og fá þér máltíð. Annars áttu á hættu að fara að narta í fituríkt snakk,“ segir Denby.

Dr. Judy Cameron og kollegar hennar duttu nánast niður á niðurstöðuna fyrir slysni. Upphaflega átti að kanna hvort samband væri milli kvenhormóna og þyngdaraukningar.

Sem liður í rannsókninni voru eggjastokkar 19 apa fjarlægðir. Við þetta minnkar til muna framleiðsla líkamans á hormóninu estrógen og kvenapar sem höfðu misst eggjastokkana fóru að eta meira og þyngjast.

Þegar eggjastokkarnir höfðu verið teknir jókst átið um 67% og líkamsþyngdin jókst um 5% á nokkrum vikum.

Niðurstöðurnar kunna að hjálpa konum sem fara að bæta á sig aukakílóum á breytingaskeiðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert