Erfðapróf á meintum bráðalungnabólgu sjúklingi í suðurhluta Kína hafa leitt í ljós að hann kann að vera haldin heilkennum alvarlegrar og bráðrar lungnabólgu, HABL, að því er Kínastjórn greindi frá í dag. Vísindamenn í Hong Kong hafa liðsinnt Kínverjum við rannsókn málsins. Bráðabirgðapróf hafa leitt í ljós að maðurinn, sem liggur á sjúkrahúsi í Guangdong-héraði, kann að vera með kórónaveiruna, að því er Xinhua-ríkisfréttstofan greindi frá.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segir að sum að þeim prófum sem gerð voru á hinum 32 ára sjónvarpsþáttaframleiðanda hafi reynst jákvæð en önnur neikvæð. Í yfirlýsingu WHO segir að málið sé afar flókið og að vísindamenn þurfi að bera saman HABL-mótefni í líkama mannsins frá því hann var veikur við efnin nú þegar hann er á batavegi. Þá segir að endanleg niðurstaða prófana fáist ekki fyrr en eftir nokkra daga.
Sjúklingurinn í Guangdong er fyrsti Kínverjinn sem talinn er vera með HABL frá því í júlí. Hann var lagður inn á sjúkrahús 20. desember sl. Tugir manna voru settir í sóttkví eftir að upp komst um krankleika mannsins. Fyrsta tilvik bráðalungabólgunnar í heiminum kom upp í Guangdong í nóvember 2002. Alls létust 349 Kínverjar úr sjúkdómnum en alls 774 í heiminum. Ríflega 8.000 manns veiktust.