Kínverjar freista þess að útrýma rottum í Guangdong

Kínverskir heilbrigðisstarfsmenn fjarlægja gildru fulla af rottum af markaði fyrir …
Kínverskir heilbrigðisstarfsmenn fjarlægja gildru fulla af rottum af markaði fyrir villtar dýrategundir í borginni Guangzhou í dag. AP

Kínverjar hafa ákveðið að rottur í Guangdonghéraði verði næstu fórnarlömb baráttu þeirra gegn hinni alvarlegu lungnabólgu (habl). Hafa leiðtogar Kommúnistaflokksins í Guangzhou, höfuðstað Guangdong, fyrirskipað stórfellda útrýmingarherferð gegn rottum í borginni.

Af þessu tilefni verður efnt til sérstaks útrýmingarátaks í Guangzhou gegn rottum og músum dagana 10.-13. janúar nk., að sögn helsta dagblaðs borgarinnar.

Hafa íbúar borgarinnar í þessu sambandi verið hvattir til að leggja út eitur og loka öllum aðgkomuleiðum fyrir rottur að heimilum þeirra, svo sem götum á húsum og frárennslislögnum. Jafnframt að hreinsa í kringum húsakynni sín.

Sérstakt átak verður gert á stjórnarskrifstofum og verslunarhúsum borgarinnar og í opinberum blokkarhverfum.

Að sögn kínversku fréttastofunnar Xinhua kveðst maðurinn sem nýlega greindist með habl-veikina hafa veitt mús á heimili sínu og kastað henni út um glugga rétt áður en hann veiktist. Í millitíðinni hafa embættismenn veitt og rannsakað um 30 mýs í íbúð hans en ekki tekist að færa sönnur á að mýs hafi borið smit.

Fyrr í vikunni létu yfirvöld í Guangdong slátra um 10.000 desköttum í Guangdong en grunur lék á að þeir bæru lungnabólgusmit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert