Læknar við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO, gerðu í Suður-Kína í dag leit á veitingastað þar sem þjónustustúlka reyndist smituð af bráðalungnabólgu en verið er að kanna hvort konan hafi fengið veiruna frá desketti sem var á staðnum. WHO segist taka mál konunnar, sem er tvítug, alvarlega en enn sé ekki um faraldur að ræða, líkt og á síðasta ári.
„Það var desköttur á veitingastaðnum,“ segir Roy Wadia, talsmaður WHO, í samtali við fréttastofu Reuters í símtali frá veitingastaðnum í borginni Guangzhou.
Kínastjórn staðfesti á mánudag fyrsta HABL-tilfellið frá því lýst var yfir í júlí 2003 að bráðalungnabólgufaraldurinn væri genginn yfir. Sjúklingurinn, sem er 32 ára karlmaður frá suðurhluta landsins, náði sér að fullu og var útskrifaður af sjúkrahúsi á fimmtudag. Kínversk yfirvöld segja að erfðapróf úr manninum líkist kórónaveirunni sem finnst í desköttum.
Heilkenna alvarlegrar og bráðrar lungnabólgu (HABL) varð fyrst vart í suðurhluta Kína og sýktust um 8.000 manns af veikinni víðs vegar um heiminn á síðasta ári og 800 létust.