Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað Kínverja við því að heilbrigðiskerfi landsins muni ekki þola álagið ef allir sem leita læknishjálpar og hafa einkenni er minna á bráðalungnabólgu, svo sem hita og hósta, fái meðferð eins og þeir væru smitaðir af sjúkdómnum. Karlmaður, sem lagður var inn á sjúkrahús í Guangdong-héraði í Kína 10. janúar með einkenni er minntu á bráðalungnabólgu, er ekki haldinn sjúkdómnum að því er kínversk stjórnvöld hafa upplýst. Reyndist maðurinn sýktur af hefðbundinni lungnabólgu. Kínversk yfirvöld segja að nú þegar hafi ein manneskja greinst með bráðalungnabólgu í Guangzhou, höfuðborg Guangdong-héraðs, og vitað sé um tvo aðra sem grunur leikur á að séu haldnir sjúkdómnum.
Bob Dietz, talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir að mikilvægt sé að skoða þá sjúklinga sem leita læknis með einkenni er minna á bráðalungnabólgu og útiloka að ekki sé um aðra sjúkdóma að ræða. Þetta þurfi að gera áður gripið er til þeirrar meðferðar sem nauðsynleg er við bráðalungnabólgu, en slík meðferð er mjög yfirgripsmikil. Ellegar muni heilbrigðiskerfi landsins hrynja.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur einnig bent á að ekki sé enn hægt að segja með fullri vissu að dýr á borð við rottur geti valdið bráðalungnabólgu, þrátt fyrir að niðurstöður prófa hafi leitt í ljós að það sé hugsanlegt. Jeffrey Gilbert, sérfræðingar stofnunarinnar í dýrasjúkdómum sem staddur er í Guangzhou í Kína, segir að einnig beri að varast að oftúlka próf sem sýnt hafa fram á að deskettir, sem eru vinsælir til matar í Kína, geti valdið sjúkdómnum. Þetta eigi enn eftir að rannsaka til hlítar.
Heilkenna bráðalungabólgu (HABL) varð fyrst vart í Guangdong héraði síðla árs 2002. Yfir átta þúsund manns víðs vegar um heiminn veiktust og um 800 létust úr sjúkdómnum áður en faraldurinn gekk yfir í júlí 2003. Neyðaráætlun kínverskra stjórnvalda, til að reyna að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn breiðist út á ný, felur meðal annars í sér slátrun þúsunda dýra sem seld eru á mörkuðum í Kína og tilraunir til að útrýma rottum.