Þriðji bráðalungnabólgusjúklingurinn í Kína á árinu hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að hafa náð sér að fullu, að því er þarlend stjórnvöld greindu frá í dag. Eftir að hinn 35 ára kaupsýslumaður hefur náð sér eru engir HABL-sjúklingar á sjúkrahúsum í landinu.
Hann fékk að fara heim af sjúkrahúsi í Guangzhou-borg klukkan 15 í dag eða kl. 7 í morgun að íslenskum tíma. Tvær aðrar manneskjur sem þjáðst hafa af HABL (heilkennum alvarlegrar og bráðrar lungnabólgu) voru útskrifaðar af sjúkrahúsi á síðastliðnum hálfum mánuði. Allir þrír sjúklingarnir eru frá Guangdong-héraði þar sem HABL varð fyrst vart á síðasta ári. Mikil hreinsun hefur átt sér stað þar og hefur hún einkum beinst að þefköttum, rottum og öðrum dýrum sem talin eru geta borið með sér veikina.