BBC heldur stjórnarfund vegna Hutton-skýrslu

Sendiboði með eintök af skýrslu Huttons lávarðar í Lundúnum í …
Sendiboði með eintök af skýrslu Huttons lávarðar í Lundúnum í dag. AP

Stjórn breska ríkisútvarpsins, BBC, ætlar að halda stjórnarfund síðar í dag, í kjölfar harðrar gagnrýni sem kemur fram á stofnunina í skýrslu Huttons lávarðar, sem rannsakaði aðdraganda þess að vopnasérfræðingurinn David Kelly framdi sjálfsmorð á síðasta ári. BBC neitaði að tjá sig um fundinn en næsta víst þykir að einhverjir yfirmenn stofnunarinnar segi af sér, hugsanlega Gavyn Davies, formaður stjórnarinnar.

Í skýrslu sinni sagði Hutton, að yfirstjórn BBC hefði átt að rannsaka betur þær heimildir sem lágu að baki þeirra fullyrðinga sem fréttamaðurinn Andrew Gilligan kom fram með um að líklega hefði breska ríkisstjórnin vísvitandi ýkt þá hættu sem stafaði af meintum gereyðingarvopnum Íraka.

Í frétt Gilligans kom fram að breska ríkisstjórnin hefði látið setja í skýrslu um vopnaeign Íraka þá fullyrðingu, að Írakar gætu beitt efna- eða sýklavopnum með 45 mínútna fyrirvara þrátt fyrir að miklar efasemdir væru meðal sérfræðinga um að fullyrðingin væri rétt.

„Ég tel að ritstýringarkerfi BBC hafi verið gallað fyrst Gilligan fékk að senda út þessa frétt... án þess að ritstjórar sæju handrit að henni áður og ákvæðu hvort hún ætti rétt á sér," segir Hutton í skýrslunni.

Hann sagði einnig að fréttin væri staðlausir stafir. „Þær ásakanir, sem Andrew Gilligan skýrði frá 29. maí 2003, um að ríkisstjórnin hafi líklega vitað að 45 mínútna fullyrðingin væri röng áður en ákveðið var að setja hana í skýrsluna, er tilefnislaus," segir Hutton.

Á fréttavef blaðsins The Guardian kemur fram að Davies muni í dag stýra fundi, þar sem tekin verði afstaða til þess hvort gagnrýnin í skýrslunni sé það alvarleg að bregðast þurfi við henni með afsögnum. Talsmaður BBC staðfesti að stjórnarfundur hefði verið kallaður saman síðar í dag en sá fundur hefði staðið til undanfarna daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert