Stjórnarformaður BBC segir af sér

Greg Dyke, framkvæmdastjóri BBC, baðst í dag formlega afsökunar fyrir …
Greg Dyke, framkvæmdastjóri BBC, baðst í dag formlega afsökunar fyrir hönd BBC á fréttaflutningu um vopnaskýrslu. AP

Gavyn Davies, stjórnarformaður breska ríkisútvarpsins, BBC, hefur sagt af sér embætti í kjölfar harðrar gagnrýni sem fram kom á stofnunina í skýrslu Huttons lávarðar um aðdragandann að því að vopnasérfræðingurinn David Kelly framdi sjálfsmorð á síðasta ári. Davies skýrði frá þessu á stjórnarfundi BBC í dag. Davies mun síðar í dag senda Tony Blair, forsætisráðherra, uppsagnarbréf sitt. Davies sagði að þeir sem stýrðu stofnunum yrði að axla ábyrgð á gerðum sínum. „Ég hef verið alinn upp í þeirri trú, að maður geti ekki valið sér dómara og að ákvörðun dómarans sé endanleg," sagði Davies.

Í skýrslu sinni sagði Hutton lávarður, að stjórnkerfi BBC væri gallað og að stjórnendur BBC hefðu ekki kannað með fullnægjandi hætti hvort útvarpsfrétt sem birtist í lok maí um að breska ríkisstjórnin hefði vísvitandi ýkt hættu sem stafaði af vopnum Íraka, væri rétt. Þá sagði Hutton að ásakanir, sem Andrew Gilligan hefði skýrt frá í fréttaþætti BBC í maí á síðasta ári væru tilefnislausar. Þar sagðist Gilligan hafa eftir heimildarmönnum, að breska ríkisstjórnin hafi líklega vitað að sú fullyrðing að Írakar gætu beitt gereyðingarvopnum með 45 mínútna fyrirvara, væri röng áður en ákveðið samt sem áður að setja hana í fram í skýrslu um vopnaeign Íraka.

Greg Dyke, framkvæmdastjóri BBC, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem viðurkennt var að nokkur lykilatriði í fréttinni hefðu verið röng og var beðist afsökunar á því.

Alastair Campbell, fyrrum upplýsingastjóri Tonys Blairs forsætisráðherra, sagði í dag, að ef ríkisstjórnin hefði sætt álíka gagnrýni í skýrslu Huttons og BBC hefði fjöldi manna þegar verið búnir að segja af sér.

Hutton-skýrslan

Brian Hutton, lávarður, flytur útdrátt úr skýrslu sinni í dag.
Brian Hutton, lávarður, flytur útdrátt úr skýrslu sinni í dag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert