Andrew Gilligan, fréttamaður BBC, breska ríkisútvarpsins, sem Hutton-nefndin gagnrýnir harðlega í skýrslu sinni, hefur getið sér orð sem mikill fréttahaukur og oft hefur hann verið fyrstur með fréttirnar. Allt er hins vegar í óvissu nú um framtíð hans hjá stofnuninni.
Brian Hutton lávarður komst að þeirri niðurstöðu, að útvarpsfrétt Gilligans um að ríkisstjórnin hefði vísvitandi ýkt hættuna af gereyðingarvopnum Íraka hefði verið tilefnislaus en David Kelly, heimildarmaður Gilligans, svipti sig lífi eftir að nafn hans hafði verið gert opinbert.
Gilligan heldur því hins vegar fram, að þótt honum hafi orðið á mistök, hafi hann haft rétt eftir Kelly í fréttinni.
Rod Little, sá, sem réð Gilligan til BBC, sagði einu sinni, að afar ágeng fréttamennska hans hefði verið hálfgert "menningaráfall" fyrir stofnunina.
Gilligan var vikið frá störfum meðan á rannsókn Hutton-nefndarinnar stóð og ekki er vitað hvað nú tekur við hjá honum. Hefur komið fram í fjölmiðlum, að hann hafi hótað því, að verði honum sagt upp, muni hann skýra frá þætti yfirmanna sinna þar í því að leka út nafni Davids Kellys. Þá er sagt, að ýmis blöð keppist um að bjóða honum fúlgur fjár fyrir sögu hans.
London. AFP.