Blair fellst á afsökunarbeiðni BBC

Tony Blair.
Tony Blair. AP

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, féllst í dag á afsökunarbeiðni breska ríkisútvarpsins, BBC, vegna mistaka sem gerð hefðu verið í frétt þar sem gefið var til kynna að breska ríkisstjórnin hefði vísvitandi ýkt hættuna sem stafaði af vopnum Íraka. Segir Blair að nú eigi að láta þetta mál niður falla.

„Í mínum huga hefur þetta alltaf verið einfalt mál: ásökun, mjög alvarleg ásökun sem borin var fram, var röng, eins og Hutton lávarður hefur sýnt fram á. Það var niðurstaðan sem ég vildi frá fram," sagði Blair.

Fyrr í dag sagði Richard Ryder lávarður, starfandi stjórnarformaður BBC, í yfirlýsingu að hann hikaði ekki við að biðjast heilshugar afsökunar á mistökum stofnunarinnar og biðja þá einstaklinga afsökunar, sem hefðu skaðast vegna þessara mistaka.

Blair sagði við fréttamenn að hann virti alfarið sjálfstæði BBC og hann efaðist ekki um að stofnunin muni halda áfram að veita breskum stjórnvöldum aðhald með viðeigandi hætti. „Þetta gerir okkur nú kleift að slá striki undir málið og horfa fram á veginn," sagði Blair.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert