Niðurstöður svonefndrar Hutton-skýrslu, sem birt var í gær, voru harðlega gagnrýndar af fjölmiðlum og stjórnmálamönnum í Bretlandi í morgun og er Hutton lávarður sakaður um að að hafa hvítþvegið bresk stjórnvöld í skýrslunni. Blaðið Independent birtir m.a. hvítan flöt á forsíðu sinni, þar sem að öðru jöfnu hefði átt að vera ljósmynd, og spyr hvort skýrsla Huttons jafngildi því að breska stjórnkerfið hafi verið hvítþvegið. Segir blaðið að niðurstaða skýrslunnar skjóti stoðum undir kröfur um að hafin verði óháð rannsókn á þeim mistökum leyniþjónustunnar sem leitt hafi Bretland í óréttlætanlegt stríð.
Blöðin The Times, Daily Telegraph og Sun, sem öll þykja fylgja hægristefnu, krefjast þess hins vegar að Greg Dyke, útvarpsstjóri BBC, fylgi í fótspor Gavins Davies, stjórnarformanns, og segi af sér.
Blaðið Daily Mail segir á forsíðu í dag, að skýrslan hafi vakið almenna undrun og sé skaðleg þar sem ekkert tillit sé tekið til þeirra miklu kosta sem breska ríkisútvarpið hafi til að bera og þeirra galla sem opinberast hafi hjá stjórnvöldum.
„Við þurfum að horfa upp á það, að stjórnarformaður BBC segir af sér en á sama tíma hlakkar í Alastair Campbell (fyrrum upplýsingamálastjóra Tonys Blairs forsætisráðherra) þar sem hann hreykir sér af fjóshaugi sínum. Þjónar þessi úrskurður, lávarður minn, virkilega hagsmunum sannleikans?" spyr Max Hastings, dálkahöfundur Daily Mail í pistli á forsíðu blaðsins.
Robin Cook, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, sem sagði af sér embætti vegna Íraksstríðsins, sagði við The Independent í morgun, að ef hann yrði dreginn fyrir dóm vegna alvarlegra saka vildi hann að Hutton lávarður yrði þar dómari. Sagði Cook að hinn „vandfýsni" Hutton hefði beitt þannig mælikvarða á sannanir, að óhjákvæmilegt var að hann hefði hreinsað Tony Blair, forsætisráðherra af ásökunum.
Christopher Bland, fyrrverandi stjórnarformaður BBC og núverandi forstjóri British Telecom, dró í sjónvarpsviðtali hlutleysi Huttons í efa. „Hann hvítþvoði ríkisstjórnina, og kannski var honum stætt á því, en hann hellti tjöru og fiðri yfir BBC og þar virðist gæta misræmis," sagði hann.
Paul Routledge, blaðamaður Daily Mirror sakar Hutton um að hvítþvo kerfið. Segir hann að sér hafi orðið óglatt af því að lesa niðurstöðu skýrslunnar. Þá segir Daily Express að hvítþvottur Huttons skilji enn fjölda spurninga eftir ósvaraðan, svo sem um réttmæti þess að Bretar tóku þátt í stríðinu gegn Írak þar sem engin gereyðingarvopn hafi fundist þar í landi, „hvað þá nokkuð það sem bendir til að Saddam Hussein hafi getað ráðist til atlögum með gereyðingarvopnum með 45 mínútna fyrirvara."
Blaðið Guardian segir að Andrew Gilligan, fréttamaður BBC, hafi haft oftar rétt fyrir sér en rangt í fréttaflutningi sínum, og BBC verði að tryggja að þar á bæ fari menn ekki á taugum. „Blaðamenn BBC verða að halda áfram að leita, verða að spyrja erfiðra spurninga, og halda áfram að valda vandræðum," segir blaðið.