Stjórn breska ríkisútvarpsins, BBC, er þessa stundina á fundi þar sem rædd eru viðbrögð við skýrslu Brians Huttons, lávarðar, sem birt var í gær, en þar kom fram hörð gagnrýni á BBC fyrir fréttaflutning um aðdraganda hernaðaraðgerðanna í Írak. Gavyn Davies, stjórnarformaður BBC, sagði af sér í gær eftir að Hutton gagnrýndi ritstýringarkerfi BBC og lýsti því yfir að ásakanir sem komu fram í fréttaþætti BBC í fyrravor, um að breska ríkisstjórnin hafi vísvitandi ýkt hættu sem talin var stafa af vopnaeign Íraka, hefðu verið tilhæfulausar.
Davies sagðist í yfirlýsingu í gær axla ábyrgðina á niðurstöðum Huttons, en lýsti þeirri skoðun, að fjalla yrði um fréttaflutning BBC í heild þegar stofnunin væri dæmd. Greg Dyke, framkvæmdastjóri BBC, las í gær yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á nokkrum lykilatriðum í fréttum fréttamannsins Andrews Gilligans, sem reynst hefðu röng, en bætti við að vopnaeftirlitsmaðurinn David Kelly, sem Gilligan byggði fréttir sínar á, hefði verið trúverðugur heimildarmaður og því hefði almenningur átt rétt á að fá upplýsingar um þær. Tony Blair, forsætisráðherra, krafðist þess í morgun að BBC bæði sig formlega afsökunar og talsmaður forsætisráðherrans sagði í morgun, að yfirlýsing Dykes jafngilti ekki ítarlegri afsökunarbeiðni.
Hutton lávarður sagði í skýrslu sinni, að ásakanir, sem Andrew Gilligan kom fram með í útvarpsþætti 29. maí 2003, um að breska ríkisstjórnin hafi líklega vitað að sú fullyrðing í skýrslu um vopnaeign Íraka, að Írakar gætu beitt gereyðingarvopnum með 45 mínútna fyrirvara, væri röng eða vafasöm, væru tilhæfulausar. Gilligan hafði eftir heimildarmanni að 45-mínútna fullyrðingin hefði ekki verið í uppkasti að skýrslunni, þar sem hún hefði komið frá einum heimildarmanni og breskar leyniþjónustustofnanir teldu ekki að hún væri örugglega sönn.
Hutton sagði í skýrslu sinni, að það væri mikilvægur þáttur í lýðræðissamfélagi, að fjölmiðlar birti upplýsingar, þar á meðal upplýsingar sem rannsóknarblaðamenn afla. En réttur til að birta slíkar upplýsingar væri þó þeim takmörkunum háð, að fjölmiðlar mættu ekki birta rangar ásakanir um heilindi annarra, þar á meðal stjórnmálamanna. Þegar blaðamaður ætlaði að senda út eða birta upplýsingar, sem bera brigður á heilindi annarra, verði stjórn viðkomandi fjölmiðils að hafa eftirlitskerfi sem tryggi að orðalag fréttanna sé hnitmiðað og rétt, og það kerfi verði einnig að fjalla um hvort réttmætt sé í ljósi allra kringumstæðna, að birta ásakanirnar.
Hutton segir, að ásakanir þær, sem Gilligan ætlaði að birta og vörðuðu ríkisstjórnina og undirbúning Íraksskýrslunnar, hafi verið mjög alvarlegar. „Ég tel að ritstýringarkerfið, sem var í gildi hjá BBC, hafi verið gallað fyrst Gilligan fékk að senda út frétt sína klukkan 6:07 án þess að ritstjórar hefðu séð handrit af því sem hann ætlaði að segja og íhugað hvort heimila ætti að birta það," segir Hutton í skýrslunni.
Þá segir Hutton að stjórn BBC hafi brugðist með því að rannsaka ekki ítarlega þær fullyrðingar ríkisstjórnarinnar, að umrædd frétt væri röng. Ekki hefði verið kannað hvort minnispunktar Gilligans, eftir samtal hans við David Kelly, styddu ásakanirnar. Og þegar stjórn BBC skoðaði loks minnispunktana eftir 27. júní hafi hún ekki gert sér grein fyrir því að þeir studdu ekki þær ásakanir sem fram komu í fréttinni.
Varðandi fund Gilligans og vopnasérfræðingsins Davids Kellys, sem var upphafið að málinu öllu, segir Hutton í skýrslunni, að ekki sé hægt að komast að endanlegri niðurstöðu um hvað þeim fór á milli vegna þess að minnispunktar Gilligans séu ófullkomnir.
„Það kann að vera að Kelly hafi sagt við Gilligan að (Andrew) Campbell (upplýsingamálastjóri Tonys Blairs forsætisráðherra) hafi borið ábyrgð á að skýrslunni var breytt, og það kann að vera, að þegar Gilligan spurði Kelly hvort það hafi verið til að gera skýrsluna meira „kynæsandi" þá hafi Kelly samþykkt það. En ég tel að Kelly hafi ekki sagt við Gilligan að ríkisstjórnin hafi líklega vitað eða grunað að 45 mínútna fullyrðingin, sem sett var inn í skýrsluna, væri röng. Ég tel einnig, að Kelly hafi ekki sagt við Gilligan, að 45 mínútna fullyrðingin hafi ekki verið í uppkasti skýrslunnar vegna þess að hún kæmi aðeins frá einum heimildarmanni og leyniþjónustan teldi ekki í raun að hún þyrfti að vera rétt."
Hutton segir, að 45 mínútna fullyrðingin hafi hins vegar þótt trúverðug á þessum tíma og hafi verið sett í skýrsluna með samþykki leyniþjónustunefndar breska ríkisins. Ástæðan fyrir því að 45 mínútna fullyrðingin kom ekki inn í skýrsluna fyrr en á síðari stigum, hafi verið sú, að leyniþjónustan fékk þessar upplýsingar ekki fyrr en 29. ágúst 2002 en skýrslan kom út í september sama ár.