Starfandi útvarpsstjóri breska útvarpsins (BBC), Mark Byford, hefur tilkynnt að innanhússrannsókn muni fara fram á því hvað fór úrskeiðis við undirbúning og vinnslu umdeildar fréttar Andrew Gilligans um skýrslu bresku stjórnarinnar um hættuna af meintum gereyðingarvopnum Íraka.
Richard Sambrook fréttastjóri sendi fréttamönnum BBC tölvupóst í dag þar sem hann greindi frá rannsókninni og sagði að henni væri ætlunin „að endurvekja tiltrú fólks á fréttaflutning BBC“. Játaði hann í tölvupóstinum að ritstjórnarlegt ferli BBC hefði brugðist í Gilliganmálinu.
„BBC varð á mistök og við verðum að taka því og bregðast við. Ég harma rangt mat á undanförnum átta mánuðum og tek á mig hluta ábyrgðar á þeim mistökum," sagði Sambrook. „Okkur til hugarhægðar get ég aðeins sagt að á sínum tíma virtust málin og samhengi hlutanna allt öðruvísi en nú," bætti hann við.
Samkvæmt niðurstöðum könnunar, sem blaðið The Guardian birti í dag treystir nálæga helmingur Breta því að hvorki BBC né pólitíkusar segi sannleikann.
Einn tilgangur innahússrannsóknar BBC er að komast að því hvernig koma megi í framtíðinni í veg fyrir álíka mistök og áttu sér stað í tengslum við þátt Gilligans og hvernig megi endurreisa traust stofnunarinnar.