Dyke segist telja að lagatúlkun Huttons sé röng

Greg Dyke.
Greg Dyke. AP

Greg Dyke, sem í gær sagði af sér sem útvarpsstjóri BBC, segir að Brian Hutton lávarður hafi augljóslega rangt fyrir sér á nokkrum hlutum skýrslu sinnar, sem hann skilaði í fyrradag um rannsókn á aðdraganda dauða vopnasérfræðingsins Davids Kellys.

„Við höfum þá skoðun... að þar komi fram greinilega röng túlkun hans á lögum," sagði hann í viðtalinu að því er kemur fram á fréttavef BBC.

Dyke sagði í viðtalinu að hann teldi áhugavert að vita hvað öðrum lagalávörðum finnist um niðurstöður skýrslunnar. „Það kom okkur í opna skjöldu hve allt var þar málað í svörtu og hvítu," sagði hann.

„Við vissum að mistök hefðu verið gerð en við töldum ekki að við hefðum einir gert mistökin," sagði Dyke, Hann sagðist vera sammála Gavyn Davies, fyrrum stjórnarformanni BBC um að enginn gæti valið dómara í eigin sök og því yrði hann að sætta sig við niðurstöðu Huttons en bætti við: „Ríkisstjórnin valdi þennan dómara."

Breskir ráðherrar lögðu í gærkvöldi á það áherslu að sjálfstæði BBC yrði ekki skert í kjölfar skýrslu Huttons. Tessa Jowell, menningarmálaráðherra, sagði að engin ástæða væri til að ótast slíkt og að endurskoðun á starfsleyfi BBC, sem fara á fram fyrir árið 2007, yrði mun víðtækari en Hutton-skýrslan. „Það er í allra þágu að BBC sé ekki undir hæl neins, haldi áfram að veita stjórnvöldum aðhald og hvetja til umræðu," sagði hún.

Hún sagði að Dyke og Davies væru heiðvirðir menn sem hefðu gert það eina heiðvirða og rétta með því að segja af sér. Mark Byford mun gegna starfi útvarpsstjóra tímabundið og Ryder lávarður verður formaður stjórnar BBC.

Könnun, sem birt var í blaðinu Guardian sýnir að þrisvar sinnum fleiri Bretar (31%) segjast treysta BBC en ríkisstjórninni (10%). En 49% aðspurðra sögðust hvorki treysta BBC né stjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert