Rice viðurkennir að upplýsingar um Írak kunni að hafa verið rangar

Condoleezza Rice.
Condoleezza Rice. AP

Bandarísk stjórnvöld hafa viðurkennt í fyrsta skipti, að upplýsingar frá leyniþjónustu um Írak kunni að hafa verið rangar. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur til þessa ávallt staðhæft, að gereyðingarvopn muni finnast í Írak, en nú hefur Condoleezza Rice, þjóðaröryggisráðgjafi Bush, sagt í viðtölum, að hugsanlega hafi upplýsingar, sem leyniþjónustustofnanir öfluðu, ekki verið réttar.

Helsta ástæðan, sem Bandaríkjamenn gáfu fyrir að ráðast inn í Írak, var að Írakar byggju yfir gereyðingarvopnum sem hætta væri á að yrði beitt gegn Vesturlöndum. Engin slík vopn hafa hins vegar fundist í Írak þótt 9 mánuðir séu liðnir frá lokum stríðsins.

„Ég held að það sé ljóst að það er misræmi á milli þess sem við vissum þegar við fórum þangað inn, og þess sem við höfum fundið," sagði Rice í viðtali við CBS sjónvarpsstöðina í gær.

Að undanförnu hefur David Kay, sem í síðustu viku sagði af sér sem yfirmaður sérstakrar vopnaleitarnefndar Bandaríkjanna, lýst því yfir að hann telji ekki að nein gereyðingarvopn hafi verið til í Írak fyrir stríðið. Á fréttavef BBC segir, að þótt erfitt sé fyrir bandarísk stjórnvöld að kyngja þessu geti embættismenn ekki lengur fullyrt að gereyðingarvopn muni finnast í Írak.

Rice vísaði í viðtalinu við CBS á bug kröfum um að óháð rannsókn verði gerð á upplýsingaöflun í aðdraganda innrásarinnar í Írak. Hún sagði að Saddam Hussein, forseti Íraks, hafi verið hættulegur maður í hættulegum hluta heimsins og tímabært hafi verið að bregðast við þeirri ógn sem af honum stafaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert