Hlé gert á þingfundi í Bretlandi vegna mótmæla

Nokkuð hefur verið um mótmælaaðgerðir í Lundúnum eftir að Hutton-skýrslan …
Nokkuð hefur verið um mótmælaaðgerðir í Lundúnum eftir að Hutton-skýrslan svonefnda var birt í síðustu viku. AP

Gera varð 10 mínútna langt hlé á þingumræðu um Hutton-skýrsluna svonefndu í neðri deild breska þingsins í dag vegna mótmælahrópa frá áhorfendabekkjum. Andstæðingar stríðsins í Írak fjölmenntu á bekkina og gerðu hróp að Tony Blair, forsætisráðherra, þegar hann fylgdi skýrslunni úr hlaði. Var þingfundi frestað í 10 mínútur eftir að Blair var truflaður í fimmta skiptið.

„Morðingi!" hrópaði einn viðstaddra. „Hvítþvottur!" hrópaði annar.

Áður en fundi var frestað varði Blair Hutton-skýrsluna, en þar er komist að þeirri niðurstöðu að bresk stjórnvöld hafi hvorki beitt sér með óviðurkvæmilegum hætti til að réttlæta hernaðaraðgerðir í Írak né gegn vopnasérfræðingnum David Kelly, sem framdi sjálfsmorð á síðasta ári.

„Ekki eitt einasta sönnunargagn var lagt fram við þessa rannsókn, sem hefði getað réttlætt aðra niðurstöðu," sagði Blair.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert