Starfsmenn BBC mótmæla pólitískri íhlutun

Starfsmenn með mótmælaspjöld við höfuðstöðvar BBC í London í dag.
Starfsmenn með mótmælaspjöld við höfuðstöðvar BBC í London í dag. AP

Starfsmenn breska útvarpsins (BBC) efndu til mótmæla við höfuðstöðvar stofnunarinnar í London og svæðisstöðvar um land allt í dag. Lýstu þeir sig andvíga hvers konar pólistískum þrýstingi og afskiptasemi. Til mótmælanna er efnt í framhaldi af harðri gagnrýni sem sett var fram á vinnubrögð BBC í skýrslu Hutton-nefndarinnar.

Hundruð starfsmanna tóku þátt í mótmælunum við höfuðstöðvar BBC í vesturhluta Lundúna en einnig kom til aðgerða við svæðisskrifstofurnar í Manchester, Newcastle, Glasgow, Cardiff og Bristol. Fulltrúar breska blaða- og fréttamannasambandins sögðu að þeir myndu leggjast gegn öllum tilraunum til að draga úr sjálfstæði BBC.

BBC var gagnrýnt fyrir skort á ritstjórnarlegu eftirliti í skýrslu Hutton-nefndarinnar sem rannsakaði dauða breska vopnasérfræðingsins David Kelly. Leiddi skýrslan til þess að stjórnarformaður BBC, Gavyn Davies, og útvarpsstjórinn, Greg Dyke, sögðu af sér.

Ennfremur sagði fréttamaðurinn Andrew Gilligan af sér, en Hutton-nefndin komst að þeirri niðurstöðu að umdeild frétt hans um að ríkisstjórnin hefði látið ýkja hættuna af gereyðingarovopnum Íraka hafi verið með öllu tilhæfulaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert