Ríkisstjórn Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, ýkti upplýsingar sem hún bjó yfir varðandi þá ógn sem stafaði af Írak fyrir stríð, að því er Hans Blix, fyrrverandi yfirmaður vopnaeftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna, greindi frá í sjónvarpsviðtali í dag. Blix sagði í þætti BBC „Breakfast with Frost“ að óljóst væri hvað væri í raun átt við með fullyrðingum í skýrslu leyniþjónustumanna frá september 2002 um að Írakar gætu beitt gereyðingarvopnum með 45 mínútna fyrirvara.
„Markmiðið var að ýkja þær líkt og sumir seljendur reyna að auka og ýkja mikilvægi þess varnings sem þeir eru með á boðstólnum,“ segir Blix. „Ég tel að við gerum meiri kröfur til stjórnmálamanna, til leiðtoga okkar í hinum vestræna heimi. Kröfur um meiri einlægni,“ bætti hann við.
Háttsettur dómari sem rannsakaði nýverið kringumstæður sjálfsmorðs vopnasérfræðings ríkisstjórnarinnar sagði nýverið að frétt BBC, um að embættismenn hafi sett fullyrðinguna um 45 mínútna viðbragðstíma inn í skýrsluna í trássi við vilja leyniþjónustumanna, hafi ekki verið á rökum reist. Þá sagði hann að fullyrðingar vísindamanns sem BBC vitnaði til í fréttinni um að embættismenn hafi ýkt upplýsingarnar sem fram komu í skýrslunni, einnig vera úr lausu lofti gripnar.
Blix segir að vestrænir leyniþjónustumenn hafi verið of auðtrúa í samtölum við vafasama landflótta Íraka. Þá segist Blix telja að stjórnmálamenn hafi matreitt upplýsingarnar á ákveðinn hátt og það hvernig Blair og George W. Bush Bandaríkjaforseti hafi tjáð sig um málið sé afleiðing upplýsingastjórnunarinnar.