Falleg, fjáð og afar opinská

Hjónin John Kerry og Teresa Heinz Kerry fagna sigrum í …
Hjónin John Kerry og Teresa Heinz Kerry fagna sigrum í forkosningum. AP

Ekki verður annað um Teresu Heinz Kerry sagt en að hún lífgi upp á umhverfið hvar sem hún fer. Fönguleg kona, vel fjáð og alls ófeimin við að láta í sér heyra, hvort sem er um réttindi kvenna, umhverfismál eða annað. Hefur hún verið manni sínum, hinum jarðbundna og stundum ekki allt of líflega John Kerry, betri en enginn í forkosningabaráttu demókrata.

Heinz Kerry er erfingi Heinz-auðsins, rúmlega 34 milljarða ísl. kr., og hún hefur ekki alltaf verið hrifin af tilhugsuninni um að verða forsetafrú. "Mér fyndist það skelfilegra en að ganga í Karmelítaklaustur," sagði hún eitt sinn í viðtali við Times-tímaritið og í annað sinn sagði hún, að fyrr myndi hún detta niður dauð en setjast að í Hvíta húsinu. Það er nefnilega ekki aðeins, að menn hafi í nokkurn tíma velt fyrir sér möguleikum John Kerrys á að verða forsetaframbjóðandi, heldur voru líka vangaveltur um það með fyrri eiginmann hennar, repúblikanann og öldungadeildarþingmanninn John Heinz. Fórst hann í flugslysið árið 1991.

Nú er Heinz Kerry á þönum ásamt eiginmanni sínum og kemur raunar oft fram án hans. Virðist hún vera búin að sætta sig við þá tilhugsun, sem hún hryllti sig yfir áður, að verða húsfreyja í Hvíta húsinu.

Talar fimm tungumál reiprennandi

Heinz Kerry er 65 ára en virðist miklu yngri. Vera kann, að "botoxið" hafi hjálpað til við það en í viðtali við tímaritið Elle í fyrra viðurkenndi hún fúslega, að hún hefði látið sprauta þessu efni í andlitið til að losna við hrukkurnar.

Teresa Heinz Kerry er portúgölsk að uppruna, fædd í Mósambík en uppalin í Suður-Afríku. Talar hún fimm tungumál reiprennandi og starfaði um hríð sem túlkur hjá Sameinuðu þjóðunum. Eftir lát eiginmanns síns, John Heinz, stýrði hún hjálparsjóðum Heinz-fjölskyldunnar og studdi þá einna mest ýmiss konar umhverfismál og réttindabaráttu kvenna, þar á meðal rétt þeirra til fóstureyðingar.

Heinz Kerry tafsar ekkert á orðunum þegar hún lýsir skoðunum sínum á George W. Bush núverandi forseta. "Ég er öskureið þessum manni og stefnu hans í efnahagsmálum. Hún er bæði óréttlát og óamerísk," segir hún.

Heinz Kerry var samt sem áður skráður repúblikani fram á síðasta ár þegar hún skipti um flokk til að geta stutt mann sinn í forkosningabaráttunni. Þegar hún var spurð um skattalækkun Bush-stjórnarinnar, sem demókratar segja að hafi komið þeim ríkustu best, svaraði hún þessu til: "Já, ég græddi á henni en ég þurfti hvorki á henni að halda né átti hana skilið."

Heinz Kerry er mjög opinská og fer ekkert í felur með, að John Heinz hafi verið stóra ástin í lífi hennar. Áttu þau þrjá syni og starfar sá yngsti, Chris, 30 ára, nú að framboði John Kerrys.

Kynntust á Ríó-ráðstefnunni um sjálfbæra þróun

Þau John Kerry og Heinz Kerry kynntust fyrst á Ríó-ráðstefnunni í Brasilíu 1992 um umhverfismál og sjálfbæra þróun en þar var hún sem fulltrúi ríkisstjórnar George Bush eldra. Kerry, sem er fimm árum yngri en Heinz, skildi við konu sína 1988 en þau eiga tvær dætur.

Í viðtali við Elle-tímaritið sagði Kerry, að sér fyndist Heinz "ákaflega kynþokkafull, eitthvað svo jarðnesk og evrópsk. Hún kann að tala með augunum".

Sumir segja, að John Kerry njóti nú Heinz-auðsins en hann segir, að fjármál þeirra hjóna séu alveg aðskilin og bendir á, að hann hafi veðsett hús sitt í Boston til að fjármagna forkosningabaráttuna.

Washington. AFP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert