Ítalski stjórnmálaleiðtoginn Umberto Bossi var fluttur á sjúkrahús í Varese á Ítalíu í morgun eftir að hann fékk hjartaáfall. Ekki mun standa til að skera Bossi upp heldur fær hann lyfjameðferð. Bossi er leiðtogi Norðurbandalagsins, sem á aðild að ríkisstjórn Silvios Berlusconis og gegnir Bossi embætti umbótamálaráðherra.
Bossi, sem er 62 þykir litríkur stjórnmálamaður. Hann studdi fyrri ríkisstjórn Berlusconis árið 1994 en hætti síðar stuðningnum og ríkisstjórnin féll.