Mjög skiptar skoðanir um sameiningaráætlun um Kýpur

Kofi Annan á fundi með Kýpur-Grikkjum í Sviss í gærkvöldi.
Kofi Annan á fundi með Kýpur-Grikkjum í Sviss í gærkvöldi. AP

Grískir fjölmiðlar voru á einu máli um að rétt hafi verið af grískum stjórnvöldum að hafna áætlun Kofis Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um sameiningu Kýpur. Hins vegar eru dagblöð þar í landi ekki sammála um hver næstu skref eigi að vera í málinu. Leiðtogi Kýpur-Tyrkja lýsti sig einnig í morgun andvígan áætluninni en blöð Kýpur-Tyrkja á Kýpur fögnuðu hins vegar áætluninni og sögðu góðan árangur hafa náðst í viðræðum. Annan tilkynnti í gærkvöldi að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um áætlunina á Kýpur 24. apríl en ef annaðhvort Kýpur-Tyrkir eða Kýpur-Grikkir höfnuðu henni myndu aðeins Kýpur-Grikkir fá aðild að Evrópusambandinu 1. maí.

Gríska blaðið Eleftheros Typos sagði í morgun að Costas Karamanlis, forsætisráðherra, hefði bjargað orðstír grískra sendimanna sem hefðu sætt „alþjóðlegum þvingunum" á samningafundum í Bürgenstock í Sviss undanfarna daga. Gríska ríkisstjórnin studdi Kýpur-Grikki og hafnaði sameiningaráætluninni.

Blaðið Eleftheros Typos spáði því að Kýpur-Grikkir muni fella sameiningaráætlunina í atkvæðagreiðslunni og áfram verði reynt að leysa deilur þjóðarbrotanna á Kýpur eftir að Kýpur-Grikkir einir fanga í ESB. Blaðið To Vima sagði að brotlending viðræðnanna í Sviss og væntanleg höfnun áætlunarinnar í atkvæðagreiðslunni muni væntanlega leiða til nýs kuldaskeiðs í samskiptum Grikkja og Tyrkja og staða Grikkja innan ESB veikist. Blaðið Eleftherotypia sagði að tillögur Annans væru hvorki lýðræðislegar né framkvæmanlegar og þær væru mjög hliðhollar Tyrkjum.

Blöð Kýpur-Tyrkja voru hins vegar mun jákvæðari í morgun. Blaðið Kibrisli sagði að niðurstaðan í Sviss hefði verið mikill sigur og vísaði einkum til ákvæða sem Tyrkjum tókst að koma inn í áætlunina á síðustu stigum viðræðnanna.

„Kýpursamkomulagið er tilbúið" sagði blaðið Yeniduzen á forsíðu og lagði áherslu á að Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hefði lýst stuðningi við áætlunina.

Nokkur blöð bentu þó á að Kýpur-Grikkir væru ekki sáttir og drógu í efa að áætlunin yrði samþykkt í atkvæðagreiðslunni.

Kýpur hefur verið skipt frá árinu 1974 þegar Tyrkir hernámu norðurhluta eyjarinnar en innrásin var viðbrögð Tyrkja við því að Kýpur-Grikkir reyndu að ræna völdum á eynni, með stuðningi þáverandi stjórnvalda í Grikklandi, með það fyrir augum að sameina Kýpur og Grikkland. Stjórn Kýpur-Tyrkja nýtur ekki stuðnings á alþjóðavettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert