Danskur hernaðarsérfræðingur, sem rekinn var úr opinberri stöðu fyrir að leka trúnaðarupplýsingum, sagði í dag í blaðaviðtali að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefði vísvitandi sagt þingmönnum ósatt árið 2002 þegar hann leitaði stuðnings þeirra við hernaðaraðgerðir gegn Írökum.
„Við höfum forsætisráðherra sem hefur sagt ósatt," sagði Frank Søholm Grevil, major, við danska blaðið Information. „Ráðherra sem hefur sagt hluti sem ekki eru í samræmi við sannleikann. Og hann gerði það ítrekað."
Søholm Grevil sagði að Fogh Rasmussen hefði fengið í hendur nokkrar skýrslur sem sýndu, að engar sannanir lægju fyrir um að Írakar hefðu gereyðingarvopn af neinu tagi undir höndum.
„Í aðdraganda stríðsins sagði Fogh Rasmussen að hann vissi að Írakar ættu gereyðingarvopn en þá voru að minnsta kosti 10 skýrslur á skrifborðinu hans sem sögðu hið gagnstæða.
Information hefur haldið uppi harðri gagnrýni á ríkisstjórn Fogh Rasmussens fyrir að styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna í Írak.
Í október 2002 sagði Fogh Rasmussen á danska þinginu, að ríkisstjórnin væri sannfærð um að stjórn Íraks réði yfir gereyðingarvopnum og flugskeytum. Hann sagði síðar, að Danir hefðu stutt innrásina í Írak og lagt fram herlið vegna þess að Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, hefði ekki farið eftir ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Nú eru 410 danskir hermenn í Írak.
Í yfirlýsingu staðfesti öryggisstofnun varnarmála í Danmörku, að Søholm Grevil hefði verið rekinn úr starfi sem sérfræðingur hjá stofnuninni í febrúar eftir að hann kom á framfæri við fjölmiðla leynilegri skýrslu, sem sýndi að engar vísbendingar væru um gereyðingarvopn í Írak.
„Yfirlýsingar og mat þessa fyrrum starfsmanns eru hans eigin," segir stofnunin. „Í aðdraganda Íraksstríðsins var það heildarmat stofnunarinanr að Írakar réðu líklega yfir sýkla- og efnavopnum."
Aðalverkefni -öryggismálastofnunarinnar er að safna upplýsingum erlendis frá og gæta öryggis danskra hernaðarmannvirkja. Aðgerðir stofnunarinnar eru ekki gerðar opinberar.