Tveir blaðamenn danska blaðsins Berlingske Tidende ásamt fyrrum hernaðarsérfræðingi hafa verið ákærðir fyrir að hafa lekið til almennings trúnaðarupplýsingum úr skýrslum, þar sem gereyðingavopnaeign Íraka var dregin í efa. Berlingske Tidende segir að þetta sé í fyrsta sinn sem blaðamenn og opinber starfsmaður eru ákærðir í samræmi við dönsk hegningarlög, fyrir meint brot er varða öryggi ríkisins.
Mennirnir eru sakaðir um að leka upplýsingum og koma fyrir sjónir almennings, leyniskýrslum, sem hernaðarsérfræðingar á vegum öryggisstofnunar í varnarmálum í Danmörku höfðu skrifað. Í skýrslunum komu fram efasemdir um að Saddam Hussein gæti talist raunveruleg ógn, en skýrslurnar voru ritaðar rétt fyrir innrásina í Írak í fyrra.
Danir studdu innrás Bandaríkjamanna í Írak í mars í fyrra og sagði danska stjórnin oft fyrir innrásina að tilvist gereyðingarvopna í Írak, réttlættu innrásina.
Fyrir innrásina sagði Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, að hann væri sannfærður um að Írakar ættu gereyðingarvopn. „Þetta er ekki bara eitthvað sem við höldum. Við vitum það,“ sagði Fogh Rasmussen í þinginu fyrir rúmu ári síðan.
Í skýrslunum sem lagðar höfðu verið fyrir ríkisstjórnina og Frank Søholm Grevil lak svo til blaðamanna á Berlingske Tidende í janúar á þessu ári, kom fram að engar áreiðanlegar upplýsingar lægju fyrir um gereyðingarvopnaeign Íraka.
Berlingske Tidende birti upplýsingarnar í febrúar og var Søholm Grevil rekinn úr starfi í mars.
Mikið hefur verið þrýst á ríkisstjórn Fogh Rasmussens í Danmörku að útskýra raunverulegar ástæður innrásarinnar í Írak, þar sem engin gereyðingarvopn hafi fundist í landinu.
Søholm Grevil segir að öryggisstofnun varnarmála hafi sent ríkisstjórninni margar skýrslur og engin þeirra hafi stutt fullyrðingar um að Írakar ættu gereyðingarvopn.
Fogh Rasmussen hefur neitað því. „Ég hafna þessum fullyrðingum algerlega. Upplýsingarnar sem ríkisstjórnin og ég lögðum fram voru samkvæmt þeim gögnum sem við höfðum fengið frá öryggisstofnuninni,“ sagði Fogh Rasmussen í gær.
Hann sagði að Danir hefðu stutt innrásina í Írak vegna þess að Saddam hefði neitað samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar eftir Persaflóastríðið 1991. „Það voru ekki gereyðingarvopnin sem höfðu áhrif á afstöðu okkar,“ sagði Fogh Rasmussen. „Skortur á samvinnu Saddams Husseins við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hlaut að hafa sínar afleiðingar fyrir hann og hún varð til þess að við ákváðum að vinna með hinu alþjóðlega bandalagi,“ bætti hann við.
Um 500 danskir hermenn eru staddir í suðurhluta Íraks, við borgina Basra. Þeir starfa undir breskri herstjórn.