Írakar áttu sennilega bæði sýkla- og efnavopn, að því er Jørn Olesen, yfirmaður öryggisstofnunar varnarmála í Danmörku sagði í dag, en stofnunin gerði í dag opinberar, 10 leyniskýrslur um gereyðingarvopnaeign Saddam Husseins.
Ákvörðun um að birta skýrslurnar var tekin eftir að hernaðarsérfræðingur, sem rekinn hafði verið úr starfi hjá öryggisstofnuninni, hélt því fram að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur hefði logið að þingmönnum árið 2002, er hann falaðist eftir stuðningi þeirra við innrás Bandaríkjamanna og bandalagríkja þeirra í Írak.
Fogh Rasmussen fyrirskipaði á föstudag að skýrslurnar skyldu gerðar opinberar fyrir fund utanríkismálanefndar danska þingsins í dag.
Olesen sagði að stofnunin hefði ávallt talið að Írakar ættu sennilega líf- og efnavopn. Hann bætti við að skjölin, sem gerð voru opinber í dag, væru byggð á upplýsingum sem Atlantshafsbandalagið (NATO) og Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hefðu látið stofnuninni í té.
í samantekt úr einni skýrslunni, sem er frá því í október 2002, segir: „Talið er að Írakar eigi fullbúin efna- og sýklavopn og búi yfir getu til þess að nota þau. Að auki er talið Írakar búi yfir getu til að framleiða smáar gerðir af slíkum vopnum. Talið er líklegt að í Írak sé í gildi áætlun um framleiðslu kjarnavopna, en að fullbúin kjarnavopn séu ekki til þar.“
Fogh Rasmussen segir að þessi skjöl sýni að hvorki hann né ríkisstjórn landsins hafi reynt að blekkja þingmenn. „Við gerðum skjölin opinber til þess að kveða niður orðróm þess efnis að ríkisstjórnin hafi misnotað, hagrætt eða leynt upplýsingum frá öryggisstofnun varnarmála,“ sagði forsætisráðherrann á blaðamannafundi eftir fund dönsku utanríkismálanefndarinnar.
Þeir sem gagnrýna stjórnina hafa krafist nákvæmari útskýringa í kjölfar birtingar skýrslanna. „Ég held að við fáum ekki fulla mynd af því hvað ríkisstjórnin vissi,“ segir Jeppe Kofod, talsmaður danska Jafnaðarmannaflokksins, sem er í stjórnarandstöðu.
Kofod bendir á að í mars 2003, stuttu fyrir innrásina í Írak, hafi Fogh Rasmussen sagt að Saddam ætti gereyðingarvopn. Dönsk leyniskýrsla frá 7. mars 2003, hafi hins vegar gefið til kynna að Írakar ættu engin virk gereyðingarvopn.
Kofod hefur óskað eftir því að óháð rannsókn fari fram á því hvort Fogh Rasmussen hafi vísvitandi blekkt þingmenn. Þó þykir ekki líklegt að slík rannsókn verði gerð því danska ríkisstjórnin hefur meirihluta á þinginu.
Danir voru meðal þeirra þjóða sem studdu innrásina í Írak og lögðu til herlið. Um 410 danskir hermenn eru nú staddir í suðurhluta Íraks.