Yfir 600 manns hafa verið sett í einangrun í Peking, höfuðborg Kína, til að koma í veg fyrir að bráðalungnabólgufaraldur brjótist út í borginni en framundan eru mikil hátíðahöld vegna 1. maí, alþjóðlegs baráttudags verkafólks. Sóttvarnastofnun borgarinnar staðfesti að 24 þeirra, sem settir hefðu verið í einangrun, væri starfsfólk stofnunarinnar. Að auki eru yfir 130 manns í einangrun í Anhui-héraði í Kína. Yfirmaður sóttvarnastofnunarinnar í Peking segir litlar líkur á því að lungnabólgan breiðist út í borginni þar sem tekist hafi að finna upptök veikinnar.
Stjórnvöld í Kína sögðu í síðustu viku, að kona sem starfaði við rannsókn á bráðalungnabólguveirunni á rannsóknarstofnun í Peking, hefði smitast af veikinni og smitað hjúkrunarkonu sem annaðist hana í kjölfarið á sjúkrahúsi í borginni. Móðir vísindamannsins hefur síðan látist og ættingjar hjúkrunarkonunnar hafa veikst. Til þessa hafa tvö staðfest tilfelli og sex meint tilfelli veikinnar komið upp í Peking og Anhui en engin ný tilfelli hafa komið upp síðustu tvo daga.