Forseti Tétsníu borinn til grafar

Lík Akhmad Kadyrovs, foseta Tétsníu, borið um götur Tsentoroi í …
Lík Akhmad Kadyrovs, foseta Tétsníu, borið um götur Tsentoroi í dag. AP

Akhmad Kadyrov, forseti Tétsníu, sem ráðinn var af dögum í gær, var borinn til grafar í heimabæ fjölskyldu hans, Tsentoroi, í dag. Um 3.000 manns gengu um götur bæjarins í morgun, fóru með bænir, og vottuðu forsetanum hinstu virðingu sína. Kadyrov var einn helsti bandamaður rússneskra stjórnvalda í Tétsníu og nú leita Rússar nýrra leiða til þess að ná tökum á svæðinu. Árásin þykir mikið áfall fyrir Pútín, Rússlandsforseta, sem hafði lýst því skömmu áður að Rússar hefðu náð yfirstjórn á svæðinu.

Tveir synir Kadyrovs, Ramzan og Zelimkhan, sem álitnir eru meðal valdamestu manna í Tétsníu, voru meðal þeirra sem báru lík forsetans á börum í samræmi við téténskar hefðir.

„Þetta er sorgardagur í öllu þorpinu, í öllu landinu,“ sagði einn þorpsbúanna sem nefndi sig Alvi.

Kadyrov var ráðinn af dögum í sprengjuárás á hersýningu á íþróttaleikvangi í Grosní, höfuborg Tétsníu í gær, en á sýningunni var sigrinum á nasistastjórn Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni fagnað.

Augljóst virðist að til hafi staðið að myrða forsetann, því sprengjubúnaðurinn var beint undir eins konar heiðurspalli sem Kadyrov sat á, ásamt háttsettum hershöfðingjum.

Á meðal þeirra sem særðust var yfirmaður rússnesku hersveitanna í Tétsníu, Valery Baranoff hershöfðingi, en hann er nú á batavegi á sjúkrahúsi.

Tölum um hversu margir létust í sprengingunum ber ekki saman. Æðsti embættismaður Rússa á svæðinu segir að sjö hafi látist, en téténska innanríkisráðuneytið segir að 32 hafi látist.

Sagði að Rússar hefðu náð yfirráðum í Tétsníu

Tveimur dögum fyrir árásina hafði Pútín, Rússlandsforseti, lýst því í innsetningarræðu, er hann sór embættiseið sem forseti Rússlands í annað sinn, að stjórnvöld í Moskvu hefðu náð ítökum á svæðinu eftir yfir fjögurra ára langt stríð.

Pútín studdi Kadyrov í embætti forseta í Tétsníu í umdeildum forsetakosningum þar í október í fyrra, þar sem hann vann mikinn sigur. Kadyrov var einn uppreisnarmanna í Tétsníu í fyrsta uppreisnarstríðinu þar á árunum 1994-1996, en í seinna stríðinu tók hann málstað Rússa.

Uppreisnarmenn hafna aðild að tilræðinu

Leiðtogi uppreisnarmanna í Tétsníu, Aslan Maskhadov, hafnar aðild að sprengjutilræðinu í gær. Í yfirlýsingu frá honum kemur vegna málsins kemur fram að hann „fordæmi öll hryðjuverk.“

„Við skiljum vel að dráp og ofbeldi munu aldrei leysa vandamál okkar,“ segir Maskhadov í yfirlýsingu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert