Mark Thompson, framkvæmdastjóri bresku Channel 4-sjónvarpsstöðvarinnar, hefur verið skipaður nýr útvarpsstjóri Breska ríkisútvarpsins, BBC, en greint var frá ráðningunni í dag.
Thompson, 46 ára, tekur við af Greg Dyke, sem sagði af sér í kjölfar Hutton-skýrslunnar svonefndu þar sem harðlega var gagnrýndur fréttaflutningur BBC um að ríkisstjórn landsins hefði ýkt sönnunargöng um gereyðingarvopnaeign Íraka til að réttlæta stríð.
Í frétt sem Andrew Gilligan, fréttaritari BBC, vann voru þessar fullyrðingar hafðar eftir ónefndum heimildarmanni. Seinna kom fram að heimildarmaðurinn var vopnasérfræðingur ríkisstjórnarinnar, David Kelly. Hann fyrirfór sér stuttu eftir að nafn hans var birt í fjölmiðlum. Málið kom miklu róti á bresk stjórnmál og fyrirskipaði Tony Blair forsætisráðherra rannsókn á tildrögum dauða Kellys.
Hutton lávarður sem stýrði rannsókninni hreinsaði ríkisstjórn Blair af nánast öllu því sem hún hafði verið sökuð um í tengslum við sjálfsmorðið. Þá var BBC harðlega gagnrýnt og varð málið eitt hið erfiðasta í sögu BBC.
Hutton komst að þeirri niðurstöðu að enginn fótur hefði verið fyrir frétt Gilligans, að vinnuaðferðum ritstjórnar hefði verið ábótavant og að stjórn BBC hefði ekki rannsakað málið nægilega áður en hún tók þá ákvörðun að verja fréttaflutninginn.
Thompson tók við starfi framkvæmdastjóra Channel 4 fyrir rúmum tveimur árum. Áður hafði hann starfað hjá BBC í um 20 ár.