Norskur hermaður fellur í Afganistan

Norskur hermaður við friðargæslustörf í Afganistan fórst og annars særðist er þremur sprengjum var varpað að bílalest þeirra við höfuðborgina Kabúl fyrir dögun í dag.

Atvikið átti sér stað er öryggissveit sem Norðmaðurinn var í var við eftirlit á Jalalabad-vegi, helsta þjóðveginum til Kabúl úr austurhluta landsins.

Um er að ræða fyrsta norska hermanninn sem fellur í Afganistan. Tveir norskir hermenn særðust í maí í fyrra er leyniskyttur skutu á bíl þeirra á Shomali-sléttunni norður af Kabúl.

Menn sem hliðhollir eru talibönum, sem fóru með völd í Afganistan, Al-Qaeda og stríðsherranum Gulbuddin Hekmatyar hafa haldið uppi árásum á hermenn, hjálparstarfsmenn og embættismenn í þeim tilgangi að grafa undan stjórn Hamid Karzai forseta, sem nýtur stuðnings fjölþjóðahers sem hrakti talibana frá völdum. Tilgangur vígamanna er að skapa glundroða og spilla fyrir fyrstu forseta- og þingkosningum í landinu eftir að veldi talibana leið undir lok, en þær eru áformaðar í september nk.

Alls eru 231 norskur hermaður í Afganistan en þeir eru hluti af 6.500 manna fjölþjóðaliði sem sinnir öryggisgæslu í landinu undir forystu Atlantshafsbandalagins (NATO).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert