Bretum sagt að skipta sér ekki af innanríkismálum Búrma

Herforingjastjórnin á Búrma, einnig nefnt Myanmar, sagði í dag Bretum að hætta að skipta sér að málefnum Búrma og sakaði fyrrum nýlenduherra sinn um ábyrgð á þeim vandamálum sem landið stendur frammi fyrir.

Breta hafa líkt og aðrar vestrænar þjóðir gagnrýnt herforingjastjórnina harðlega fyrir mannréttindabrot og fyrir að láta ekki völdin í hendur lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar. Þá hafa Bretar sett efnahagslegar og pólitískar þvinganir á Búrma.

Í síðustu viku lýsti breska utanríkisráðuneytið því yfir að ráðstefna, sem herforingjastjórnin hefur boðað til til að leggja drög að nýrri stjórnarskrá, skorti trúverðugleika. Ráðstefnan sem hófst 17. maí er fyrsta skrefið í þátt átt sem mun að lokum leiða til frjálsra kosninga, segir herforingjastjórnin.

„Myanmar vill muna Bretland á að fyrrverandi nýlenduherra Myanmar ber mikla ábyrgð á því tjóni sem þjóð Myanmar varð fyrir,“ segir í yfirlýsingu herforingjastjórnarinnar.

Búrma hlaut sjálfstæði 1948. Herinn komst til valda eftir að hann braut á bak aftur fjöldamótmæli lýðræðissinna árið 1988. Þá virti hann að vettugi niðurstöður þingkosninga 1990 er flokkur friðarverðlaunahafans Aung San Suu Kyi fór með sigur af hólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert