Óánægja með að flaki Guðrúnar verði ekki lyft

Mikil óánægja er með það í Norður-Noregi að norska ríkisstjórnin hefur ákveðið að hætt verði við tilraunir til að ná flaki togarans Guðrúnar Gísladóttur upp á yfirborðið en komið hefur í ljós að flakið er mikið skemmt. Blaðið Avisa Nordland hefur eftir Guri Ingebrigtsen, fyrrverandi ráðherra og formanni Lófótráðsins, að þetta sé hneyksli og mikið áfall fyrir umhverfisstefnu Noregs.

„Forsætisráðherra, umhverfisráðherra, olíu- og orkumálaráðherrann og sjávarútvegsráðherrann hafa sagt að flakið verði fjarlægt vegna þess að það ógni umhverfinu. Síðan berast þessar fréttir. Það hlýtur að verða að setja spurningarmerki við umhverfisstefnu stjórnvalda á strandsvæðinu," segir hún.

Hún segir að málið hafi verið rætt í Lofotráðinu og þar séu menn sammála um að ákvörðunin sé hneykslanleg. „Togarinn skal upp og í burtu vegna þess að það stafar af honum hætta fyrir umhverfið og umferð skipa á svæðinu. Við stöndum sameinuð á bak við þá kröfu og munum ekki gefast upp baráttulaust," segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert