Reyna að má út minningu Zhao Ziyangs

Námsmaður býður skriðdrekum birginn á Torgi hins himneska friðar fyrir …
Námsmaður býður skriðdrekum birginn á Torgi hins himneska friðar fyrir 15 árum. AP

Fyrrverandi forsætisráðherra Kínverska alþýðulýðveldisins sem einnig er fyrrum aðalritari kommúnistaflokksins, Zhao Ziyang, er nú dauðvona á 84. aldursári sínu, skv. frétt á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Dóttir hans segir heilsu hans svo slæma að búast megi við "hinu versta."

Zhao var settur í stofufangelsi eftir atburðina á Torgi hins himneska friðar í Peking fyrir fimmtán árum en hann hafði áður grátbeðið mótmælendur að yfirgefa torgið.

Forsætisráðherranum fyrrverandi hefur verið haldið utan seilingar fjölmiðla af kínverskum stjórnvöldum og hlutverk hans í uppbyggingu landsins hefur verið þurrkað út úr kínverskum sögubókum.

Talið er að væntanlegt andlát Zhao geti komið sér illa fyrir kommúnistaflokkinn því ill meðferð flokksins á honum verði rifjuð upp af andstæðingum stjórnarinnar nú þegar fimmtán eru liðin frá hinum hörmulegu fjöldamorðum.

Þora ekki að minnast Zhao

Kínverjar vilja ekki tjá sig um Zhao af ótta við aðgerðir stjórnvalda. Fyrrverandi skrifstofustjóri hans, Bao Tong, sem sat í fangelsi í sjö ár af sömu ástæðum og Zhao, segir kínversk stjórnvöld óttast hann og því séu þau staðráðin í því að þurrka nafn hans út úr huga og hjörtum Kínverja. Þau vilji hindra það að nær hálfur annar milljarður manna njóti lýðræðis og laga.

"Hann fórnaði valdi fyrir hugsjónir sínar," segir fyrrum ræðuhöfundur Zhao, Wu Guoguang, og bætir því við að ríkjandi stjórn þekki aðeins valdið. Zhao hafi staðið fast á andstöðu sinni við aðgerðir öryggissveitanna og ekki reynt að kaupa sér aftur völd með því að játa á sig mistök.

Wu segir milljónir verkamanna og bænda atvinnulausar vegna stefnu yfirvalda og óánægjan kraumi undir. Stjórnvöld séu því búin undir hið versta og verði sífellt hæfari í því að halda mótmælendum í skefjum.

Hetja eða ekki?

"Hr. Zhao og mótmælendurnir létu tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur," segir ónefnd, kínversk kennslukona í viðtali við BBC. Hún segir algert öngþveiti hafa blasað við og því verið gripið til aðgerða gagnvart mótmælendum. Hún segir Zhao ekkert hafa breyst undanfarin fimmtán ár, hann hafi ekki hugmynd um hvernig ástandið sé í landinu.

Líklegt er talið að þeir sem notið hafa ávaxta kínversks kapítalismaséu á sama máli. Li Cheng, sérfræðingur í málefnum Kína við Hamilton- háskóla í New York-ríki, segir að Zhao hafi ekki haft hugmynd um það á sínum tíma hvernig taka ætti á mótmælendum á torginu og skort pólitískan stuðning til aðgerða. Það sé ekki hægt að kalla hann hetju því mótmæli námsmanna hafi beinst gegn honum líka.

Li segir að andstæðingar stjórnvalda muni lenda í vandræðum með að staðsetja Zhao stjórnmálalega vilji þeir nýta sér nafn hans.

Ekki er víst að væntanlegt andlát Zhao muni hafa einhver áhrif á ástandið í Kína. Líklega verður hans þó minnst í sögubókum fyrir það að reyna að afstýra fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert