Segir fanga ekki hafa verið pyntaða í Guantanamo

Fangar í Camp X-Ray búðunum í Guantanamo á Kúbú. Myndin …
Fangar í Camp X-Ray búðunum í Guantanamo á Kúbú. Myndin var tekin árið 2002. AP

Bandarískur hershöfðingi hefur vísað á bug fullyrðingum um að fangar hafi verið pyntaðir á meðan hann var yfir umdeildu fangelsi við Guantanamo-flóa á Kúbu, að því er segir í frétt Reuters.

Rick Baccus var með þessu að svara fullyrðingum breskra fanga sem segjast hafa verið barðir og niðurlægði í fangabúðunum þar sem rúmlega 500 meintum al-Qaeda liðum og talibönum er haldið á ákæru eða aðgangs að lögfræðingi.

Baccus sagði í samtali við BBC að föngum hefði ekki verið haldið í álagsstellingum eða þvingaðir á annan hátt, a.m.k. ekki á meðan hann hafi starfað þar.

Hart hefur verið deilt á Bandaríkjamenn fyrir yfirheyrsluaðferðir þeirra eftir að upp komst um misþyrmingar á föngum í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak.

Ástralinn David Hicks og Mamdouh Habib frá Egyptalandi, sem báðum var haldið föngum í Guantanamo í rúm tvö ár, sögðu í síðasta mánuði að þeir hefðu sætt barsmíðum og pyntingum. Ástralskir embættismenn sem heimsóttu Kúbu segja að fullyrðingarnar séu úr lausu lofti gripnar.

Þá sögðu bresku fyrrverandi fangarnir Shafiq Rasul og Asif Iqbal í síðasta mánuði að þeir hefðu verið í hlekkjum sem leyfðu mjög litla hreyfingu og að þeir hefðu neyðst til að sitja á hækjum sér með hendurnar hlekkjaðar milli fóta sér á gólfinu klukkustundum saman á meðan þeir sættu yfirheyrslum.

Þá segja þeir að hundar hafi verið notaðir til að hræða fanga, fangar hafi verið niðurlægðir kynferðislega, sterk ljós hafi verið notuð, hávær tónlist og fimbulkuldi til að auka á óþægindi fanganna. Þriðji breski fanginn, Tarek Dergoul, sagði að úðað hafi verið á sig með piparúða og að hann hafi verið rakaður gegn vilja sínum.

„Það var enginn rakaður gegn vilja sínum,“ sagði Baccus sem var gagnrýndur fyrir linkind gagnvart föngunum og hætti störfum í Guantanamo í október 2002.

Nokkrum föngum hefur verið sleppt úr fangabúðunum í Guantanamo en þegar mest lét voru þar um 620 fangar. Amnesty International á Íslandi hefur í samvinnu við fjölda félagasamtaka og netmiðla mótmælt því að föngum sé haldið í fangabúðunum án þess að þeim sé birt ákæra eða að þeir fái að hitta lögmann eða ættingja sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert