Allawy segir að Bandaríkjamenn muni framselja Saddam á næstu vikum

Saddam Hussein eftir að hann var handtekinn í desember.
Saddam Hussein eftir að hann var handtekinn í desember. AP

Iyad Allawi, forsætisráðherra væntanlegrar bráðabirgðastjórnar í Írak, segir að Bandaríkin muni framselja Saddam Hussein, fyrrum forseta Íraks, og alla aðra fanga til írösku ríkisstjórnarinnar á næstu tveimur vikum. Bandarískir embættismenn segjast hins vegar ætla að halda allt að 5 þúsund föngum sem taldir eru vera ógn við sambandsherinn, eftir að Írak fær fullveldi að nýju 30. júní. Talsmaður Alþjóðanefndar Rauða krossins segir, að bandalagsþjóðirnar í Írak verði annað hvort að ákæra Saddam eða sleppa honum þegar Írakar fá fullveldið.

Allawi sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina Al-Jazeera, að Írakar búist við því að fá Saddam Hussein og aðra fanga í hendur um mánaðamótin. Hann sagði að Saddam muni koma fyrir rétt eins fljótt og unnt er. En hann bætti við að fangarnir og Saddam einnig, yrðu afhentir íröskum stjórnvöldum, „og þið getið litið á þetta sem opinbera staðfestingu á því," sagði hann.

Staða Saddams hefur verið til umræðu þegar brátt sér fyrir endann á hernámi bandalagshersins í Írak. Nada Doumani, talsmaður Alþjóðanefndar Rauða krossins, sagði að samkvæmt alþjóðalögum og herlögum eigi að láta stríðsfanga og óbreytta fanga lausa þegar stríðsátökum lýkur nema ákæra sé lögð fram á hendur þeim. Saddam fékk stöðu stríðsfanga þegar hann var handtekinn nálægt Tikrit í desember sl. Þótt hann sé sagður hafa framið glæpi gegn eigin þjóð hefur engin ákæra verið lögð fram á hendur honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert