George W. Bush Bandaríkjaforseti bar lof á forvera sinn í embætti, Bill Clinton, við athöfn þar sem afhjúpuð voru opinber málverk af Clinton-hjónunum sem prýða munu veggi Hvítahússins. Stjórnmálaskýrendum þótti lofgjörðin óvenjuleg á kosningaári en í ræðu sinni auglýsti Bush meir að segja væntanlega ævisögu Clintons.
„Bill Clinton sýndi ótrúlega atorku og var heillandi. Þekking hans var djúpstæða og víðtæk, hann hafði mikla samkennd með þurfandi og bjó yfir anda framsýni sem Bandaríkjamenn kunna svo vel að meta í forseta,“ sagði Bush í ræðu við athöfnina.
Bush og Laura kona hans sátu með Clinton-hjónunum og dóttur þeirra Chelsea við athöfnina í Hvítahúsinu en í lok hennar voru málverkin hengd upp.
Bush sagði að Clinton hefði þurft meira en „sjarma og greind“ til að brjótast áfram úr fábrotinni æsku í Arkansas. „Þar kom einnig til harðfylgi, kraftur, staðfesta og bjartsýni. Ég get sagt ykkur meira af þeirri sögu en hún birtist senn í fínum bókaverslunum um gjörvöll Bandaríkin,“ sagði Bush og skírskotaði til þess að endurminningar Clintons, „My Life“, kemur út 22. júní nk.
Fyrsta útgáfa bókarinnar verður í 1,5 milljónum eintaka. Útgefandi er forlagið Alfred A. Knopf en það borgaði Clinton rúmlega 10 milljónir dollara fyrirfram fyrir bókina. Hún er 957 blaðsíður.