Engar sannanir fyrir tengslum milli Saddams og al-Qaeda

9/11-nefndin er í opnum vitnaleiðslum í Washington.
9/11-nefndin er í opnum vitnaleiðslum í Washington. AP

Engar trúverðugar sannanir eru fyrir því að Saddam Hussein, fyrrverandi forseti Íraks, hafi aðstoðað al-Qaeda hryðjuverkasamtökin við árásir á Bandaríkin, að sögn nefndar er farið hefur með rannsókn á hryðjuverkaárásinni 11. september 2001. Þessar fullyrðingar ganga þvert á yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar. Þá segir í skýrslu nefndarinnar að æfingabúðir Osamas bin Ladens sem staðsettar hafa verið víða um heim hafi verið nokkuð öflugar. Verðandi hryðjuverkamönnum hafi verið hvattir til að hugsa á skapandi hátt um þær aðferðir sem hægt væri að beita til að fremja fjöldamorð.

Bin Laden leitaði eftir aðstoð Saddams, segir í skýrslunni, líkt og hann leitaði til leiðtoga í Súdan, Íran, Afganistan og annars staðar þar sem hann reyndi að byggja um íslamskan her.

Þó svo að Saddam hafi sent háttsettan mann úr leyniþjónustunni til fundar við bin Land í Súdan árið 1994 þá hafa ekki fundist sannanir fyrir því að um hafi verið að ræða samvinnu þarna á milli.

Stjórn George W. Bush forseta hefur lengi haldið því fram að tengsl hafi verið milli Saddam Hussein og al-Qaeda og voru þau tengsl ein ástæða innrásarinnar inn í Írak á síðasta ári. Dick Cheney varaforseti sagði á mánudag í ræðu að íraski einræðisherrann hefði átt langa vináttu við al-Qaeda.

Nefndin, sem skipuð er fulltrúum bæði demókrata og repúblikana, sat í dag fyrir opnum vitnaleiðslum þar sem reynt er að varpa ljósi á versta hryðjuverk sem framið hefur verið í Bandaríkjunum. Nefndin sendir frá sér fullnaðarskýrslu um málið í júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert