Yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA, sagði í dag að Íranar ættu að endurskoða ákvörðun sína um að taka upp auðgun úrans að nýju. Hver svo sem framvindan yrði sagðist Mohamed ElBaradei ekki hafa trú á því að Evrópuríki hættu viðræðum við Íran.
ElBaradei var með ummælum sínum að bregðast við þeirri yfirlýsingu íranskra yfirvalda að þau hygðust falla frá gefnum loforðum í febrúar sem þau settu fram í fundi með fulltrúum Bretlands, Frakklands og Þýskalands. Íranar hétu því þá að hætta þróun skilvinda sem notaðar eru til að auðga úran en unnt er að nota efnið í kjarnorkuvopn.