Tveir létu lífið í sprengjuárás í Afganistan

Sprengja sprakk í rútu sem flutti starfsmenn kosninga í Afganistan í dag með þeim afleiðingum að tvær konur létu lífið og 13 særðust. Um borð í rútunni voru konur sem hugðust skrá afganskar konur á kjörskrá fyrir fyrstu kosningarnar sem haldnar hafa verið frá því talibönum var steypt af stóli.

Talsmaður talibana lýsti yfir ábyrgð á árásinni en hún er sú mannskæðasta af þeim sem beinst hafa gegn starfsfólki kosninganna.

Drápin munu líklega auka þann þrýsting sem er á leiðtogum Atlantshafsríkjanna, NATO, um að senda fleiri friðargæsluliða til Afganistans vegna kosninganna sem fram fara í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert