Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að hugsanlega finnist aldrei hin meintu og ólögmætu gereyðingarvopn Saddams Husseins, fyrrverandi forseta Íraks. Blair víkur þó ekki frá þeirri sannfæringu sinni að alþjóð hafi staðið ógn af einræðisherranum. Meint efna- og sýklavopnaeign Saddams var meginástæða innrásarinnar í Írak. Engu að síður hefur gereyðingarvopnaleit í Írak reynst árangurslaus.
„Ég verð að viðurkenna að við höfum ekki fundið þau og að við finnum þau kannski aldrei,“ sagði Blair við þingnefnd í dag. „Við vitum ekki hvað hefur orðið af þeim. Þau gætu hafa verið fjarlægð, þau gætu hafa verið falin, þau gætu hafa verið eyðilögð.“
Blair hafnaði öllum fullyrðingum í þá veru að aldrei hafi verið um neinar birgðir af gereyðingarvopnum að ræða og að heiminum hafi ekki staðið ógn af Saddam. „Það væru mistök að fara í öfgarnar í hina áttina og segja að vegna þessa þá hafi aldrei staðið nein ógn af Saddam,“ sagði Blair.
Hann segir að vopnaleitarteymi hafi þegar sýnt fram á að Saddam hafi haft hernaðarlega burði, ásetning og hafi margbrotið ályktanir Sameinuðu þjóðanna. „Ég trúi því einlæglega að vopnabirgðirnar hafi verið til staðar,“ bætti Blair við.