Dómstóll í Lundúnum hefur ákveðið að hlíf 100 ára breskum karlmanni, sem varð eiginkonu sinni að bana, við fangelsisvist. Við yfirheyrslur játaði maðurinn að hafa skorið á háls sjúkrar eiginkonu sinnar, með þeim afleiðingum að hún lést. Eftir að ljóst varð um málavexti þótti dómsstólnum ljóst að maðurinn hefði framið verknaðinn í nafni ástarinnar.
Bernard Heginbotham, sem býr í grennd við bæinn Blackpool, í norð-vestur Englandi, var þess í stað úthlutað 12 mánaða langri dvöl á endurhæfingarstofnun, þar sem hann hefur verið undir miklu álagi upp á síðkastið. Fyrir dómi játaði hann að hafa orðið eiginkonu sinni til 67 ára, Idu Heginbotham, að bana þegar hann heimsótti hana á dvalarheimilið þar sem hún bjó, í apríl síðastliðnum.
Hafði eiginkona hans verið heilsuveil og þurft á sérfræðiaðstoð að halda, en hún hafði margsinnis verið flutt á milli dvalarheimila. Daginn sem atvikið átti sér stað var Heginbotham afar miður sín, þar sem hann hafði frétt að enn á ný ætti að flytja eiginkonu hans á nýjan stað. „Hann vildi ekki að konan sín þyrfti að flytja eina ferðina enn og var hræddur um að henni yrði ekki sinnt jafn vel á nýja staðnum,“ segir verjandi mannsins.
Dómarinn í málinu, Brian Leveson, segir hjónaband þeirra hafa verið „glaðlegt“ og að sér þætti fullvíst að Heginbotham hefði framið verknaðinn undir „óbærilegum þrýstingi.“ Eins og þú veist var það sem þú gerðir hræðilegt, en ég geri mér grein fyrir þeim þrýstingi sem þú varst undir, auk þess sem þú hefur sýnt mikla iðrun við réttarhöldin,“ sagði Leveson við Heginbotham.