Liðsmenn afgönsku leyniþjónustunnar ræddu við Mullah Omar, leiðtoga talibana, eftir að þeir gerðu upptækan gervihnattarsíma sem notaður var af aðstoðarmanni Omars. Háttsettur afganskur embættismaður greindi frá þessu í dag. Bandaríkjastjórn hefur reynt að hafa hendur í hári Omars og Osamas bin Ladens, leiðtoga al-Qaeda, frá því hún réðist gegn Afganistan síðla árs 2001.
Maður, sem talinn er vera aðstoðarmaður Omars, Mullah Sakhi Dad Mujahid, var handtekinn á þriðjudag en hann bar á sér gervihnattarsíma sem hafði að geyma símanúmer hjá æðstu mönnum talibana, að því er Abdullah Laghmanai, yfirmaður leyniþjónustunnar í Kandahar.
„Við höfðum samband við Omar í gegnum síma Mullah Mujahids,“ segir Laghmanai og bætir við að til að byrja með hafi Mujahid verið neyddur til að tala við Omar í símann. „En þegar Omar áttaði sig á því hvernig var í pottinn búið sleit hann símtalinu.“
„Salam-aleikum (friður sé með þér), hvar ertu?“ spurði Omar Mujahid, segir Laghmanai sem gat þess ekki hvenær símtalið fór fram.
Mujahid var handtekinn á þriðjudag í áhlaupi á Dara-i-Noor, um 70 km norður af borginni Kandahar í Suður-Afganistan.
Mujahid var ráðherra í talibanastjórninni á árunum 1996-2001. Laghmanai segir að hann gegni núna embætti hernaðarráðgjafa.