Butler birtir dóm sinn yfir ákvörðun Blair

Tony Blair fræðir ítalskan starfsbróður sinn, Silvio Berlusconi, um kennileiti …
Tony Blair fræðir ítalskan starfsbróður sinn, Silvio Berlusconi, um kennileiti í London af svölum stjórnarráðsbyggingar eftir blaðamannafund þeirra í gær. ap

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, fékk í gær í hendur eintak af skýrslu rannsóknarnefndar Butlers lávarðar sem kannað hefur starfshætti bresku leyniþjónustunnar í aðdraganda Íraksstríðsins. Hann mun svara niðurstöðum skýrslunnar með yfirlýsingu á þingfundi í neðri málstofu breska þingsins í dag.

Skýrsla Butler-nefndar verður gerð opinber klukkan 11:30 að íslenskum tíma, klukkan 12:30 að breskum tíma. Blair svarar fyrir sig klukkustund seinna.

Leiðtogar Frjálslyndra demókrata og Íhaldsflokksins fengu ekki að sjá skýrsluna fyrr en klukkan 6 í morgun. Sú ákvörðun hefur leitt til ásakana um að ríkisstjórnin hafi fengið ósanngjarnt forskot til að undirbúa umræðurnar í þinginu í dag.

Er Charles Kennedy, leiðtogi Frjálslyndra, kom í þinghúsið í London í morgun til að fara yfir skýrsluna sagði hann að hún myndi varpa ljósi á þá pólitísku dómgreind sem leiddi til „tiltölulega óþarfrar styrjaldar“.

Michael Howard, leiðtogi Íhaldsflokksins, sagðist hlakka til þess að lesa „afar mikilvæga skýrslu um afar mikilvægt málefni“.

Nefndin hefur undanfarna fimm mánuði fyrir luktum tjöldum farið yfir njósnagögn og rannsakað starfshætti hinna ýmsu leyniþjónusta Breta, en á grundvelli þeirra var þátttaka Breta í herförinni gegn Saddam Hussein Íraksforseta réttlætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert