Bobby Fischer, fyrrum heimsmeistari í skák, hefur verið handtekinn í Japan, grunaður um brot á japönsku innflytjendalöggjöfinni. Að sögn Reutersfréttastofunnar var Fischer, sem er 61 árs, handtekinn á Naritaflugvelli í Tókýó á miðvikudag þegar hann ætlaði að fara frá Japan til Filippseyja en vegabréf hans reyndist ekki vera gilt.
Verið er að rannsaka hvernig Fischer kom til Japans. Kyodo fréttastofan segir að til standi að vísa honum úr landi bráðlega.
Fischer varð heimsmeistari í skák eftir einvígi við Sovétmanninn Borís Spasskí í Reykjavík 1972. Hann tefldi aldrei aftur um titilinn en alþjóðaskáksambandið neitaði að fallast á kröfur Fischers fyrir einvígi sem hann átti að tefla við Anatolí Karpov 1975. Fischer hvarf eftir það sjónum manna allt til ársins 1992 þegar hann birtist skyndilega í Júgóslavíu og tefldi annað einvígi við Spasskí. Bandarísk stjórnvöld töldu þetta brot á viðskiptabanni sem þá var í gildi gegn Júgóslavíu. Í kjölfarið hvarf Fischer á ný en þó var vitað að hann dveldist í Japan.