Flugræningjarnir 11. september nýttu sér brotalamir í bandaríska stjórnkerfinu

Eldur logar í turnum World Trade Center árið 2001 eftir …
Eldur logar í turnum World Trade Center árið 2001 eftir að farþegaflugvélum var flogið á þá. AP

Niðurstaða lokaskýrslu nefndar, sem rannsakað hefur aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001, er einkum sú að hryðjuverkamennirnir, sem rændu farþegaflugvélum og flugu þeim á World Trade Center og Pentagon hafi nýtt sér verulegar brotalamir innan bandaríska stjórnkerfisins. Hins vegar kemst nefndin ekki að þeirri niðurstöðu að hægt sé að kenna þeim Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og George W. Bush, núverandi forseta, um að bandarískar leyniþjónustu- og lögreglustofnanir sváfu á verðinum og tókst ekki að koma í veg fyrir árásirnar.

Skýrslan verður birt á morgun, en AP fréttastofan hefur eftir embættismönnum, sem hafa séð hana, að í henni sé lýst þolinmæði og staðfestu flugræningjanna og sagt að þeir hafi nýtt sér veikleika í starfsreglum flugfélaga og landamæraeftirlits, og jafnvel farið í tilraunaflug til að rannsaka hvenær dyr inn í stjórnklefa flugvéla væru opnar.

Embættismenn í Hvíta húsinu og forustumenn Bandaríkjaþings hafa fengið upplýsingar um niðurstöður skýrslunnar og Bush fær í fyrramálið eintak af skýrslunni, sem er 575 blaðsíðna löng.

AP hefur eftir einum embættismanni, að ekki sé hægt að kenna einstaklingum eða tilteknum atburðum um hvernig fór, en leiði þess í stað í ljós skipulagsveikleika innan stofnana bandaríska stjórnkerfisins sem sagðir eru hafa farið vaxandi með árunum.

Þá er komist að þeirri niðurstöðu að Bush og Clinton hafi tekið þá ógn, sem stafaði af al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum, alvarlega. Hvorugum forsetanum sé hægt að kenna um árásirnar, sem hafi verið skipulagðar á löngum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert