Breska ríkisútvarpið, BBC, sem gagnrýnt var fyrir fréttaflutning sinn í aðdraganda Íraksstríðsins, tilkynnti í dag að yfirmaður fréttasviðs verði fluttur í annað starf. Richard Sambrook lætur af störfum sem fréttastjóri og verður settur yfir erlendri fréttadeild sem er ábyrg fyrir alþjóða fréttum BBC í útvarpi, sjónvarpi og á Netinu. Helen Boaden mun taka við fréttastjórastöðunni.
Boaden sér núna um Radio 4 og stafrænu sjónvarpsstöðina BBC7.
Sambrook var fréttastjóri á síðasta ári þegar BBC flutti frétt þar sem ríkisstjórnin var sökuð um að hafa ýkt staðreyndir í mikilvægri leyniskýrslu sem notuð var af Tony Blair forsætisráðherra sem grundvöllur fyrir réttlætingu á innrásinni inn í Írak.
Rannsókn Hutton lávarðar á tildrögum sjálfsmorðs vopnasérfræðingsins Davids Kellys, sem BBC sagði hafa verið sinn helsta heimildarmann í fréttinni, hreinsaði Blair og aðra embættismenn af ásökunum um að hafa ýkt upp staðreyndir í skýrslunni.
Hutton ávítaði ritstjóra BBC fyrir að hafa látið hjá líða að fara yfir það sem Andrew Gilligan hugðist segja í fréttinni, áður en hún var send í loftið, og ennfremur fyrir að hafa látið hjá líða að fá viðbrögð stjórnvalda við fregninni.
Í tölvupósti til starfsfólks BBC eftir skýrslu Huttons viðurkenndi Sambrook að BBC hefði gert mistök sem miðillinn þyrfti að horfast í augu við. Sambrook og Boaden taka við störfum sínum í september. Sambrook hefur gegnt starfinu í tæp fjögur ár.