Bandarísk rannsóknarnefnd, sem skilaði í dag skýrslu um aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin árið 2001, mælir með því að gerðar verði umtalsverðar skipulagsbreytingar á leyniþjónustu Bandaríkjanna og eftirlitsstarfi þingsins. Í skýrslunni eru leyniþjónustustofnanir harðlega gagnrýndar fyrir að hafa mistekist að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásirnar þar sem um þrjú þúsund manns létu lífið. Nefndin telur ekki að hægt sé að kenna ákveðnum einstaklingum um en segir bandarískir leiðtogar hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri ógn, sem stafað hafi af hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda.
Thomas Kean, formaður nefndarinnar, sagði að glappaskot hefðu verið gerð í stefnumótun, við stjórnun og fjárveitingar og einnig hefði menn skort ímyndunarafl.
Nefndin leggur m.a. til að komið verði á fót nýrri stofnun sem hafi það verkefni að berjast gegn hryðjuverkum og samræma upplýsingar og aðgerðir gegn íslömskum hryðjverkamönnum. Stofnað verði nýtt embætti yfirmanns slíkrar stofnunar og komið á fót kerfi til að tryggja að upplýsingar berist á milli leyniþjónustustofnana. Þá er lagt til að eftirlitshlutverk Bandaríkjaþings verði aukið til muna, og bandaríska alríkislögreglan, FBI, og heimavarnarráðuneytið, verði einnig efld.
Fréttaskýrendur segja, að þessar tillögur feli í sér mestu breytingar á bandarískum innanríkismálum frá því bandarísku leyniþjónustunni CIA var komið á fót eftir síðari heimsstyrjöldina.
Rannsóknarnefndin, sem skipuð var fulltrúum bæði repúblikana og demókrata, hefur starfað í nærri tvö ár og hefur yfirheyrt yfir 1000 vitni og skoðað fjölda skjala. Lokaskýrslan, sem skilað var í dag, er nærri 600 blaðsíðna löng.
„Árásirnar (þann 11. september 2001) voru áfall en þær hefðu ekki átt að koma á óvart," segir í niðurstöðum skýrslunnar. Íslamskir ofsatrúarmenn hafi komið því með skýrum hætti á framfæri að þeir vildu drepa Bandaríkjamenn. „Bandaríkjastjórn taldi ekki að hryðjuverk væru yfirþyrmandi ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna, hvorki ríkisstjórn (Bills) Clintons né ríkisstjórn (Georges W.) Bush áður en árásirnar voru gerðar."
Kean sagði að nefndin hefði viljað einbeita sér að því að leggja mat á hvernig hægt væri að koma í veg fyrir frekari árásir hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, sem væri skarpur óvinur, þolinmóður og afar hættulegur. „Árás, sem væri stærri í sniðum, er nú vel hugsanleg og jafnvel líkleg. Við höfum ekki ótakmarkaðan tíma. Við verðum að vera vel undirbúin og við verðum að grípa til aðgerða," sagði hann.
Lee Hamilton, varaformaður nefndarinnar, sagði að njósnastofnanir verði að breyta hugsunarhætti sínum og það yrði að vera regla frekar en undantekning að þær deili upplýsingum hver með annarri. Þingið þurfi einnig að breyta starfsháttum sínum.