Bush ánægður með skýrslu nefndar um 11. september

Bush er ánægður með skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Bush er ánægður með skýrslu rannsóknarnefndarinnar. AP

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, er ánægður með skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar, sem sett var á laggirnar til þess að rannsaka hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001. Í frétt BBC greinir frá því að Bush hafi lýst sig sammála þeirri niðurstöðu nefndarinnar, að hryðjuverkamennirnir hafi nýtt sér brotalamir í bandaríska stjórnkerfinu þegar þeir skipulögðu og frömdu ódæðin. Bush benti jafnframt á, eftir að skýrslan var birt, að mörg atriði til endurbóta sem rædd væru í henni, hefðu þegar verið framkvæmd. Nefndin lagði til að miklar endurbætur yrðu gerðar á starfsemi bandarískra leyniþjónusta.

„Þar sem ríkisstjórnin þarf að bregðast við, mun hún gera það,“ sagði Bush eftir að hafa fengið eintak af skýrslunni í hendur. Nefndin hefur unnið hörðum höndum að rannsókn málsins í tvö ár.

„Við munum íhuga alvarlega allar tillögur því við deilum sama markmiði,“ bætti Bush við.

John Kerry, mótframbjóðandi Bush úr röðum demókrata í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum, hvatti forsetann til að bregðast skjótt við. „Ef ég verið kjörinn forseti og sé að hlutum hefur ekki fleygt fram með þeim hætti sem skyldi, mun ég ekki bíða dag í viðbót. Ég mun taka af skarið,“ sagði hann.

Leyniþjónustustofnanir hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir að takast ekki að afstýra árásunum á New York og Washington, en um 3.000 manns létust í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert