Drukkinn ökumaður ók á franska fjölskyldu

Hjón á miðjum aldri og 10 ára sonur þeirra, sem voru á ferð á hjólum í Loiredal í Frakklandi, létu lífið þegar bíl var ekið á þau. 12 ára dóttir hjónanna slapp hins vegar lítið meidd. Ökumaðurinn, sem býr á svæðinu, stakk af frá slysstað en var handtekinn í morgun. Lögregla segir, að maðurinn hafi líklega verið drukkinn þegar slysið varð.

Slysið varð í gærkvöldi nálægt borginni Bourges en fjölskyldan hjólaði eftir fáförnum sveitavegi áleiðis heim. Konan lést samstundis en maðurinn og drengurinn létust síðar á sjúkrahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert