Raðir byrjuðu að myndast snemma í morgun utan við Eason bókaverslunina í O'Connell stræti í Dublin, þar sem Bill Clinton ætlar í dag að árita sjálfsævisögu sína, My Life. Rok og rigning voru í borginni en um 500 manns sem biðu utan við verslunina létu það ekki á sig fá. Clinton og Hillary kona hans fóru héðan í gærkvöldi til Írlands.
„Andrúmsloftið hér er frábært," sagði talsmaður bókaverslunarinnar. „Clinton nýtur mikilla vinsælda á Írlandi og bókin hans er í efsta sæti sölulistanna. Verslunin er lokuð öðrum en þeim sem vilja fá áritaða bók. Annars verða hér aðeins starfsmenn verslunarinnar, öryggisverðir FBI og leyniþjónustunnar."
Bertie Ahern, forsætisráðherra Íralands, stytti sumarleyfi sitt svo hann gæti átt fund með Clinton. Hann býður Clinton-hjónunum einnig til kvöldverðar á sveitasetri forsætisráðherraembættisins í kvöld. Clintonhjónin ætla til Norður-Írlands á morgun. Bill mun þá árita bækur í Belfast en Hillary mun flytja fyrirlestur í Londonderry.
Clinton beitti sér mjög í málefnum Norður-Írlands á meðan hann var forseti og fór oft til Írlands.