Mörg hundruð manns gengu í kvöld um götur Aþenu í Grikklandi í mótmælaskyni við fyrirhugaða heimsókn Colin Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á Ólympíuleikana í Aþenu, að því er greint er frá í frétt BBC. Mótmælendur hugðust ganga að sendiráði Bandaríkjanna í borginni, en voru stöðvaðir af nokkur hundruð lögreglumönnum úr óeirðalögreglu. Til nokkurra ryskinga kom, en fólkið henti flöskum og veggspjöldum að lögreglu. Með aðgerðunum vildi fólkið mótmæla stefnu Bandaríkjanna gagnvart Mið-Austurlöndum, þar á meðal stríðinu í Írak.
Lögregla vill að mótmælendur haldi sig fjarri sendiráðinu, sem er staðsett á götu sem er fjölfarin í tengslum við ÓL, að sögn fréttaritara.
Petros Constantinou, einn skipuleggjenda mótmælanna, sagði í samtali við BBC að fólkið „teldi að Powell ætti ekki að koma til Grikklands.“ „Hann hefur verið mjög ögrandi í tengslum við veru Bandaríkjamanna í Írak - þetta eru friðsamleg mótmæli til að sýna að við viljum hann ekki hingað,“ sagði skipuleggjandinn. Constantinou bætti við að mótmælendurnir væru ekki á móti Bandaríkjunum, heldur bandarískri heimsvaldastefnu.
Grísk yfirvöld segjast viðurkenna rétt fólksins til þess að mótmæla, en þau vilji ekki að það valdi vandræðum.