Flokksþing bandaríska Repúblikanaflokksins hófst í Madison Square Garden í New York í dag en það stendur í fjóra dag. Um 5000 þingfulltrúar komu saman í dag við setningu þingsins en á fimmtudag verður George W. Bush, Bandaríkjaforseti, formlega útnefndur forsetaefni flokksins og Dick Chensey varaforsetaefni.
Þetta er í fyrsta skipti sem Repúblikanaflokkurinn heldur flokksþing í New York. Á því verður lögð áhersla á það hvernig Bush hafi veitt bandarísku þjóðinni forustu í kjölfar hryðjuverkaárásanna á borgina 11. september 2001.
John McCain, öldungadeildarþingmaður, sem nýlega var í heimsókn á Íslandi, og Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóri New York, munu m.a. flytja ávörp í dag. Cheney mun flytja ræðu á miðvikudag og taka þar við útnefningu sem varaforsetaefni og Bush daginn eftir.
Mikil mótmæli hafa verið í New York síðustu daga vegna flokksþingsins. Talið er að rúmlega 100 þúsund manns hafi í gær tekið þátt í mótmælagöngu í borginni.